Háskóli Íslands

Verðlaunaðar fyrir rannsóknaverkefni sín

Fjórar ungar vísindakonur voru verðlaunaðar fyrir rannsóknarverkefni sín á sextándu ráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. Verðlaunin voru afhent við slit ráðstefnunnar á Háskólatorgi þann 4. janúar síðast liðinn.

Margrét H. Ögmundsdóttir, doktor við lífefna- og sameindalíffræðistofu HÍ, hlaut verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, til ungs of efnilegs vísindamanns, fyrir verkefnið „Þrívíddarbygging umritunarþáttarins MITF varpar ljósi tvenndarmyndun og DNA sértækni“. Verðlaunin afhenti Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Birna Þórisdóttir, MSc í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild, hlaut verðlaun velferðarráðuneytisins, til ungs og efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði forvarna eða heilsueflingar, fyrir verkefnið „Tengsl mataræðis á fyrsta aldursári við líkamsþyngdarstuðul og ofþyngd sex ára barna“. Verðlaunin afhenti Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Berglind Eva Benediktsdóttir, doktor í lyfjafræði við Lyfjafræðideild, hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði, til ungs námsmanns fyrir verkefni á sviði lyfja- og eiturefnafræði, fyrir verkefnið „Samband á milli byggingar N-alkýl-N,-dímetýl kítósanafleiða og gegndræpisaukandi áhrifa þeirra á berkjuþekju“. Verðlaunin afhenti Magnús Karl Magnússon, prófessor við Læknadeild.

Bylgja Hilmarsdóttir, doktorsnemi við Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum við Lífvísindasetur HÍ, hlaut hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar, sem veitt eru af Félagi íslenskra lífeðlisfræðinga, til ungs og efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði lífeðlisfræði eða skyldra greina, fyrir verkefnin „Hlutverk miR200-141 í bandvefsumbreytingu stofnfrumna í brjóstkirtli“ og „Tjáningarmunstur Meg3 í bandvefsumbreytingu brjóstastofnfrumulínu“. Verðlaunin afhenti Gísli H. Sigurðsson, prófessor við Læknadeild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is