Háskóli Íslands

Vel heppnuð ráðstefna 2013

Sextánda ráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands fór fram á Háskólatorgi dagana 3. og 4. janúar 2013 og tókst afar vel til.

Dagskráin var fjölbreytt en í ár voru flutt rúmlega 180 erindi og um 120 veggspjöld voru til sýnis. Efnisflokkarnir voru 25 talsins og spönnuðu þeir vítt svið líf- og heilbrigðisvísinda. Á meðal nýrra efnisflokka á dagskrá má meðal annars nefna: faraldsfræði og heilsueflingu, hjúkrun, stoðkerfi og hreyfingu, lyfjafræði og tannheilsu. Ágrip allra rannsókna sem kynntar voru á ráðstefnunni voru gefin út í fylgiriti Læknablaðsins, sjá hér.

Gestafyrirlestrarnir voru fjórir talsins en þar fjallaði Kristján Sigurðsson, yfirlæknir leitarstöðvar KÍ og prófessor við Læknadeild, um leghálskrabbameinsleit, Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræðideildar LSH, um gömul og ný segvarnarlyf um munn, Urður Njarðvík, dósent í barnasálfræði við Sálfræðideild, um árangur hugrænnar atferlismeðferðar við hegðunarvanda barna og Eggert Gunnarsson, dýralæknir að Keldum, um smitandi hósta í hrossum.

Á síðustu ráðstefnu var bryddað upp á þeirri nýjung að bjóða almenningi til opins fræðslufundar. Það tókst einkar vel til og því var ákveðið að efna til slíks fundar aftur. Að þessu sinni fjallaði Guðmundur Þorgeirsson forseti Læknadeildar og sérfræðingur í hjartasjúkdómum um forvarnir gegn hjarta og æðasjúkdómum og Halldór Jónsson jr. fjallaði um skurðaðgerðir við slitgigt á Íslandi. Mæting á fundinn var góð og augljóst að efnin áttu erindi við almenning. Í framhaldi af erindi sínu kom Guðmundur Þorgeirsson svo fram í Síðdegisútvarpi Rásar 2. Til gamans má einnig geta að mörg þeirra rannsóknarefna sem voru á dagskrá ráðstefnunnar rötuðu í fjölmiðla og almennt var umfjöllun um ráðstefnuna mikil og góð.

Hér má sjá myndir frá ráðstefnunni.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is