Háskóli Íslands

Fjölmennt á fyrstu nýsköpunarráðstefnunni

Fjölmenni var á fyrstu nýsköpunarráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs sem fram fór föstudaginn 11. október 2013 á Radisson BLU Hótel Sögu. Tæplega hundrað þátttakendur hlýddu á erindi í þremur málstofum og sóttu fjölbreytta veggspjalda- og vörusýningu.

Setning ráðstefnunnar var í höndum Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. Kristján þakkaði Heilbrigðisvísindasviði fyrir framtakið en jafnframt einnig öllu okkar vísindafólki fyrir að leita nýrra lausna og hugmynda í heilbrigðisvísindum. Þá ávapaði Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor í matvælaefnafræði við Matvæla- og næringarfræðideild og formaður samtakra íslenskra líftæknifyrirtækja, ráðstefnuna og flutti hvatningarorð til nýsköpunar.

Vísindafólk frá flestum deildum og námsbrautum Heilbrigðisvísindasviðs kynnti hugmyndir og verkefni á ráðstefnunni ásamt fjölda fólks af öðrum vettvangi. Má þar nefna Verkfræði- og náttúruvísíndasvið Háskóla Íslands, Raunvísindastofnun Háskólans, Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Landspítala - háskólasjúkrahús, Blóðbankann, Össur og fjölda annarra fyrirtækja og stofnana.

Eins og fyrr segir fór ráðstefnan fram í þremur málstofum en þær voru; frá grunnvísindum til afurða, nýjungar í heilbrigðisþjónustu og tæknilausnir í sjúkraþjálfun. Þá fór einnig fram veggspjalda- og vörusýning. Þar gafst ráðststefnugestum tækifæri til að bragða á hinni nýverðlaunuðu Hai Shen sæbjúgnasúpu, en súpan er nýsköpunarverkefni sem unnið er í samstarfi nemenda við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Listaháskólans. Fulltrúar frá Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala voru einnig á staðnum og veittu upplýsingar um starfsemi nefndarinnar.

Í riti sem gefið var út í tilefni ráðstefnunnar er að finna heiti verkefna, nöfn höfunda og ágrip allra þeirra spennandi nýsköpunarverkefna sem kynnt voru.
Skoða ráðstefnuritið fyrir Nýsköpun á Heilbrigðisvísindasviði.

Það var mikil ánægja með þessa fyrstu nýsköpunarráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs og ljóst að brýn þörf er fyrir slíkan vettvang. Stefnt er að því að ráðstefnan verði reglulegur viðburður og verður spennandi fylgjast með þeirri þróun.

Hér er hægt að skoða fjölmargar skemmtilegar myndir frá ráðstefnunni.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is