Háskóli Íslands

Nýsköpunarráðstefna í næstu viku

Hátt í þrjátíu hugmyndir verða kynntar á nýsköpunarráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands sem fram fer fimmtudaginn 12. nóvember nk. á Hótel Sögu. Þetta er í annað sinn sem ráðstefnan er haldin en henni er ætlað að skapa vettvang fyrir starfsfólk, nemendur og samstarfsaðila háskólans til að kynna verkefni og hugmyndir um nýsköpun í heilbrigðisvísindum.

Dagskráin er afar fjölbreytt en á meðal verkefna sem kynnt verða eru áhættureiknir fyrir augnsjúkdóma af völdum sykursýki, handbækur um breytingar á mataræði, keppni nemenda í þróun vistvænna matvæla, tölvuleikur til kennslu fyrir sjúklinga eftir skurðaðgerð, upplifunarhönnun á móttöku Kvennadeildar Landspítalans, þróun á gönguhermi fyrir börn með hreyfihömlun auk ýmissa nýrra tæknilausna í heilbrigðisþjónustu. Setning ráðstefnunnar er í höndum Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra. Þá flytur Tatjana Latinovic, deildarstjóri hugverkadeildar hjá Össuri hf. spennandi ávarp.

Tæplega hundrað þátttakendur hafa nú þegar skráð sig og í þeim hópi er vísindafólk frá flestum deildum og námsbrautum Heilbrigðisvísindasviðs ásamt fólki af öðrum vettvangi. Má þar nefna Verkfræði- og náttúruvísindasvið og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Landspítala - háskólasjúkrahús, Blóðbankann, Lyfju og Össur hf.

Nýsköpun í heilbrigðisvísindum er mikil á heimsvísu og vinna fjölmörg fyrirtæki og stofnanir að slíkum verkefnum hér á landi. Háskólasamfélagið er mikilvæg uppspretta nýsköpunar og ljóst er að ráðstefnur á borð við þessa leggja veigamikinn grunn að vísindastarfi framtíðarinnar.

Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur er ókeypis.

Takið daginn frá og fjölmennið.

Dagskrána má lesa í heild sinni á vefsíðu ráðstefnunnar: radstefnurhvs.hi.is

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is