Háskóli Íslands

Nýsköpunarráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands efnir til þriðja nýsköpunarráðstefnunnar eftir hádegi föstudaginn 17. nóvember 2017 í Veröld – húsi Vigdísar. Þér er boðið að taka þátt!

Ráðstefnan er fyrir alla, innan skólans og utan, sem vilja kynna verkefni eða hugmynd um nýsköpun í heilbrigðisvísindum.

Undir nýsköpun fellur til dæmis frumkvöðlastarf, nýjar lausnir og hugmyndir sem unnið er að s.s. nýjar vörur, aðferðir eða leiðir í þjónustu, greiningu og meðferð. Verkefnin þurfa að vera gagnleg fyrir samfélag og/eða atvinnulíf, vera virðisaukandi eða stuðla að ávinningi.

Til þess að taka þátt þarf að senda inn 200 orða ágrip fyrir miðnætti 10. október 2017. Nánar um ágrip.

Ekkert þátttökugjald er á ráðstefnuna en allir þurfa að skrá sig, líka höfundar og meðhöfundar sem hyggjast mæta. Skráning.

Starfsfólk og stjórn

Framkvæmd ráðstefnunnar er í höndum skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs og Vísindanefndar Heilbrigðisvísindasviðs.

Umsjónaraðilar fyrir hönd skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs:

Katrín Björg Jónasdóttir, markaðs- og vefstjóri
sími: 525 5424 - netfang: kbj@hi.is

Margrét Bessadóttir, rannsóknastjóri
sími: 525 4835 netfang: margrebe@hi.is

Sæunn Gísladóttir, verkefnastjóri
sími: 525 4866 netfang: saeunng@hi.is

Vísindanefnd Heilbrigðisvísindasviðs skipa:

Einar S. Björnsson,  prófessor við Læknadeild og formaður
Elín S. Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild og varaformaður
Erla K. Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild
Heiða María Sigurðardóttir, lektor við Sálfræðideild
Inga B. Árnadóttir, prófessor við Tannlæknadeild
María Guðjónsdóttir, dósent við Matvæla- og næringarfræðideild

Fyrri ráðstefnur

Ráðstefnan fór síðast fram 12. nóvember 2015. Þar voru þrjátíu fjölbreytt verkefni kynnt fyrir ríflega 100 þátttakendum.

Vísindafólk frá flestum deildum og námsbrautum Heilbrigðisvísindasviðs kynnti verkefni á ráðstefnunni ásamt fjölda fólks af öðrum vettvangi. Má þar nefna Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, Raunvísindastofnun Háskólans, Háskólann í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Landspítala - háskólasjúkrahús, Blóðbankann, Össur og fjölda annarra fyrirtækja og stofnana.

Verkefnin voru því af ólíkum toga. Það var til dæmis fjallað um hvernig má nota sýndarveruleika til þess að kanna líðan þéttbýlisbúa, hvernig má ráða aldur barna af tannþroska þeirra, hvaða aðferð má beita til þess að auka hitaþolni lyfja, hvernig mætti nota útrunnar blóðflögur til þess að rækta stofnfrumur, hvernig sérstök dúkka getur aukið jafnvægi ungabarna og hvernig megi auka öryggismenningu á vinnustöðum.

Ráðstefnan fór fram í fjórum málstofum, þær voru; tækni í þágu heilsu; nýsköpun og líðan einstaklingins; nýjar aðferðir í öndvegi; og frá grunnvísindum til afurða. Þá fór einnig fram veggspjalda- og vörusýning. Fulltrúar frá Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala voru einnig á staðnum og veittu upplýsingar um starfsemi nefndarinnar og gestum gafst tækifæri á að prufa sérstakan áhættureikni fyrir augnsjúkóma.

Skoða myndir frá ráðstefnunni

Skoða ráðstefnurit með dagskrá og ágripum

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is